Sara Rós Kristinsdóttir, félagsliði og NLP- markþjálfi, stofnaði árið 2016 Facebook-síðuna Jákvæðar fréttir. „Mér hefur alltaf fundist vera einblínt á neikvæðar fréttir og það sem vekur athygli fólks eru oft neikvæðar fréttir. Það er auðvitað þörf fyrir að tala um það sem er að gerast í heiminum en mér fannst vanta meiri áherslu á jákvæðar fréttir. Mér fannst Facebook vera góður vettvangur til að deila jákvæðum fréttum hinna ýmsu fjölmiðla,“ segir Sara Rós. „Þetta er frekar einföld leið til að gera jákvæðar fréttir sýnilegar.“ Þess má geta að í ár bættist Jón Rúnar Jónsson við sem umsjónarmaður síðunnar þannig að þau eru nú tvö í þessu. Síðan er unnin í sjálfboðavinnu. Þá má geta þess að Sara og Fanney Þórisdóttir halda úti Facebook- og Instagram-síðunum „Tilviljunarkennd góðmennska“ og „Lífsstefna“ þar sem er einnig jákvætt og uppbyggilegt efni.
„Talað er um að við þurfum fimm jákvæðar fréttir til að vega upp á móti einni neikvæðri frétt og hvað er þá betra en að fylgja síðu sem deilir einungis jákvæðum fréttum? Á síðunni má finna fréttir sem fjalla um hið góða og fallega sem er að gerast í samfélaginu en þar er að finna fréttir af fólki sem er að leggja sitt af mörkum fyrir samfélagið, fólki sem skarar fram úr á einhverjum sviðum, fólki sem sýnir hugrekki og eru fyrirmyndir sem og fréttir sem eru skemmtilegar og gleðja sálina.“
Ein besta tilfinningin
Sara Rós segist lengi hafa haft ástríðu fyrir því sem tengist að efla sjálfan sig, láta sér líða vel, einblína á það góða og hugarfarið. „Ég hef ofurtrú á að það hafi mikil áhrif það sem maður einblínir á. Til gamans má geta að niðurstöður rannsókna hafa sýnt að ef fólk verður vitni að góðverki eða góðvild annarra þá framleiðir líkaminn okkar hormónið Oxytocin eða ástarhormónið, Þetta er mjög áhugaverð staðreynd. Það að lesa og skoða jákvætt efni ýtir undir vellíðan.“
Sara Rós er félagsliði og fíkni ráðgjafi að mennt auk þess að vera NLP- markþjálfi og krakka jóga kennari og hefur meðal annars unnið með fólki með geðraskanir og einnig ungu fólki. „Mér finnst vera mjög gefandi að valdefla fólk eða að hjálpa fólki að verða betri útgáfa af sjálfum sér. Þetta er ástríða mín, það gefur mér mikið að gleðja aðra og mér hefur alltaf fundist tilgangur minn vera að vinna með öðru fólki. Ég fór í mikla sjálfsvinnu á sínum tíma og fann eftir það hvað maður getur haft mikla stjórn; maður getur sjálfur valið hugarfarið og eftir þá uppgötvun fann ég mikla þörf fyrir að kasta boltanum áfram þ.e.a.s að hjálpa öðrum að öðlast betri líðan. Það skiptir máli á hvað við einblínum og mér finnst vera svo mikilvægt að fólk hafi í huga hvort það einblíni á hið jákvæða eða hið neikvæða. Maður þarf ekki að vera jákvæður alla daga, alltaf og auðvitað er eðlilegt að upplifa neikvæðar tilfinningar en við getum valið að einblína meira á hið jákvæða. Lífið verður þá margfalt skemmtilegra.“
Sara Rós segir að draumur sinn sé að koma með eitthvað jákvætt í samfélagið og hún segir að það sé það sem hún stefni að með vinnu sinni síðar meir. „Það er gefandi ef maður er mögulega að hjálpa öðrum. Það er ein besta tilfinning sem maður fær.“
Fyrirsagnir / Fréttir
– Stúlka fæddist í bílasal slökkviliðsins í Skógarhlíð
– Segist feginn að geta notið félagsskapar á hjúkrunarheimili á tímum heimsfaraldar.
– Gjafmildur kaupmaður gefur fötluðum börnum spjaldtölvur
-Fræðsla gegn fordómum
-Júlíus lýsir reynslu sinni af geðhvarfasýki
Fólk sem er fyrirmyndir:
-Fjallað um Brynjar Karl á Discovery
-Flottir og jákvæðir drengir.
– Gaman að sjá íslenska frumkvöðlastarfsemi blómstra
– Telja sig geta unnið Tinder með skemmtilegra stefnumótaforriti
Ingrid Kuhlman er framkvæmdastjóri Þekkingarmiðlunar og með meistaragráðu í hagnýtri jákvæðri sálfræði:
„Ég fagna þessu nýja framtaki á fésbókinni sem hefur fengið heitið Jákvæðar fréttir. Það að veita jákvæðum fréttum meiri athygli og sneiða fram hjá neikvæðum fréttum hefur jákvæð áhrif á líðan okkar og heilsu og stuðlar að bættu andrúmslofti í samfélaginu. Það gerist gríðarlega margt jákvætt á hverjum degi sem vert er að segja frá; sem dæmi þá blómstrar góðmennskan í miðjum heimsfaraldri sem aldrei fyrr. Vandamálið er að jákvæðu fréttirnar þykja stundum ekki fréttnæmar eða týnast þar sem þær „erfiðu“ fá oft og tíðum mun meira vægi í fjölmiðlum. Þegar við lesum uppbyggilegar og upplífgandi fréttir lyftist andinn og bjartsýni og vellíðan eykst. Þegar við deilum þeim svo með öðrum, til dæmis á samfélagsmiðlum, smitum við út frá okkur á jákvæðan hátt. Rannsóknir hafa sýnt að það að lesa jákvæðar færslur annarra eykur hamingju 64% lesenda. Það væri því gott ef sem flestir myndu setja sér það markmið að deila jákvæðum fréttum á samfélagsmiðlum og segja skemmtilegar og uppbyggilegar sögur á kaffistofunni í vinnunni. Reynum að hleypa því góða inn og hlúa að jákvæðum hlutum.
Það er morgunljóst að við sækjum í auknum mæli í uppbyggilegar fréttir af öllu því góða sem er að gerast í samfélaginu. Í apríl sl. leitaði metfjöldi að góðum fréttum á Google og eftirspurnin hefur verið stöðug síðan þá. Þetta er góð vísbending um að fólk er þyrst í jákvæðar sögur í þessu krefjandi verkefni sem við erum öll í. Nýlega sagði New York Times líka frá aukinni eftirspurn eftir jákvæðum fyrirsögnum og jákvæðum fréttum.“