Sara Rós Krist­ins­dótt­ir, fé­lagsliði, markþjálfi og stofn­andi Lífs­stefnu, seg­ist hafa upp­lifað sig eins og geim­veru í æsku en hún átti erfitt með nám og glímdi í kjöl­farið við brotna sjálfsímynd sem varð til þess að hún þróaði með sér kvíða, þung­lyndi og átrösk­un á ung­lings­aldri. Hún greind­ist þó með ADHD og ein­hverfu eft­ir þrítugt sem skýrði ótrú­lega margt en hún seg­ir að hún hefði þurft mun meiri stuðning en hún fékk í æsku.

Ákveðin út­skúf­un

„Það var ekki eins mik­il vitn­eskja og það var svo­lítið verið að skamma mann. Ef maður var ekki að vinna í tím­um var manni svo­lítið hent út. Ég skil al­veg að þetta fólk vissi bara ekki bet­ur. En þetta er ákveðin út­skúf­un. Þetta er það. Maður upp­lif­ir það, sér­stak­lega ef maður er viðkvæm­ur,“ seg­ir Sara Rós í Dag­mál­um, frétta- og menn­ing­ar­lífsþætti Morg­un­blaðsins. 

Hún byrjaði í mik­illi sjálfs­vinnu 16 ára, eft­ir að hún hafði kom­ist inn á BUGL og fengið meiri stuðning, sem hjálpaði henni mikið og fór að skapa sína eig­in ham­ingju. Hún fann í fram­hald­inu, ástríðu sína, sem er að vinna með fólki og fræða það, sem hún ger­ir í dag í gegn­um Lífs­stefnu á sam­fé­lags­miðlum þar sem hún deil­ir fræðslu­mol­um um geðheil­brigði, ADHD og ein­hverfu með yfir 5.000 fylgj­end­um. 

Stuðning­ur­inn skipt­ir máli

„Ég hefði þurft miklu meiri stuðning. Ég sé það svo skýrt í dag,“ seg­ir Sara. 

„For­eldr­ar mín­ir voru ekki að hugsa að hún gæti verið með ADHD. Þau segja í dag: Við viss­um ekki hvað það var,“ seg­ir Sara en hún seg­ir að það fá grein­ing­arn­ar loks á full­orðins­aldri hafi skipt hana meira máli en hún bjóst við eft­ir alla sjálfs­vinn­una.

Snýst ekki um stimpla

„Ef fólk er að hugsa þetta þá myndi ég alltaf mæla með að fara í grein­ingu,“ seg­ir Sara.

„Ég hef heyrt hluti eins og: Af hverju þarf maður að setja stimp­il á þetta? En það er bara ekki rétt, þetta snýst ekki neitt um það. Þetta snýst um sjálfsþekk­ingu,“ seg­ir Sara sem seg­ist hafa tekið meira til­lit til sín eft­ir að hafa upp­götvað að hún væri ein­hverf.