Tilfinningar okkar eru ekki neikvæðar né jákvæðar.
Tilfinningar koma þegar heilinn okkar losar um ákveðinn taugaboðefni eða hormón.
Við höfum öll tilfinningar þó við séum með mis sterkar tilfinningar. Við göngum ekki öll sama lífsins veg og upplifum því ekki öll jafn mikla gleði né jafn mikla sorg í lífinu. Einnig erum við misjöfn í grunninn og þar af leiðandi upplifum við ekki öll sömu tilfinningar við svipaðar aðstæður. Við erum ekki bara alltaf hamingjusöm og hlægjandi. Það er allt í lagi því við eigum ekki að vera það, dagarnir okkar eru misjafnir. Auðvitað getum við verið með fókus á það að reyna að horfa á jákvæðu hliðarnar fram yfir þær neikvæðu en það má ekki gera það að verkum að við ýtum eðlilegum tilfinningum í burtu. Við þurfum að læra heilbrigðar leiðir til að komast í gegnum erfiðar tilfinningar.
Flest myndum við vilja vera öllum stundum glöð en það er ekki raunhæft.
Það er oft talað um að við þurfum að upplifa sorg eða leiða til að vita hvernig það er að upplifa gleði. Það er fullkomlega eðlilegt að upplifa allan tilfinningaskalann, það er mannlegt. Við eigum ekki að forðast neinar tilfinningar heldur eigum við að leyfa þeim að flæða og taka þær í sátt. Þannig komumst við í gegnum þær í staðinn fyrir að bæla þær niður.
Afhverju viljum við forðast sumar tilfinningar?
Það geta verið ósjálfráð viðbrögð að vilja forðast þær tilfinningar sem okkur finnst óþægilegar. Fyrstu viðbrögð okkar eru þá að hafna þeim vegna þess að við flokkum þær sem slæmar tilfinningar sem við eigum ekki að upplifa. En afhverju setjum við þessa pressu á okkur að líða alltaf vel? Mögulega er það vegna þess að við fáum þau skilaboð í samfélaginu að við eigum alltaf að vera upp á okkar besta og helst alltaf brosandi. Eða að við eigum einungis að sýna samfélagslega samþykktar tilfinningar og þar af leiðandi förum við að gera óraunhæfar kröfur á okkur sjálf. Uppeldi getur verið að hafa áhrif í sumum tilfellum ef að fólk fær þau skilaboð í æsku að sýna ekki “óæskilegar” tilfinningar. Vissulega er það ekki þæginlegt eða auðveld að fara í gegnum erfiðar tilfinningar. En við þurfum að læra að leyfa okkur að hafa allar tilfinningarnar og vera meðvituð um að þannig er lífið. Lífið er allskonar og margt getur gerst bæði góðir hlutir og erfiðir hlutir. Það getur gert kraftaverk að viðurkenna eigin líðan og leyfa sér að fara í gegnum þær tilfinningar sem koma upp. Það er líka meiri ávinningur af því heldur en að bæla óþægilegar tilfinningar niðri því að allar hafa þær tilgang. Ef að kvíði, sorg, leiði eða reiði eru farnar að yfirtaka lífið og vera mest ríkjandi þá er gott að leita aðstoðar hjá fagaðila. Það getur verið nauðsynlegt að fá hjálp við að vinna sig í gegnum sumar lífsreynslur og tilfinningar.
Fyrir þá sem samþykkja ekki erfiðar tilfinningar þá getur það reynst þeim erfitt að vera til staðar fyrir aðra.
Þá finnst fólki óþægilegt að hlusta á aðra segja frá erfiðum tilfinningum sínum og reynir mögulega að eyða umræðunni með setningum á borð við:
- Það eru nú margir sem hafa það mun verr en þú.
- Þú ættir nú bara að vera ánægð / ánægður með það sem þú hefur.
- Horfðu nú á björtu hliðarnar.
- Reyndu nú bara að brosa.
- Reyndu nú bara að hafa gaman.
- Þetta er nú ekki það slæmt
- Hugsaðu bara jákvætt.
- Enga neikvæðni.
- Hafðu nú ekki áhyggjur af þessu.
- Það gerist allt af ástæðu, hugsaðu það bara þannig.
- Hættu nú að hugsa um þetta.
- Ef ég gat gert þetta þá getur þú það nú líka.
Þegar fólk bregst við með þessum hætti þá kallast það eitruð jákvæðni eða það mætti líka kalla það falska jákvæðni. Manneskjan er í raun að segja hinum aðilanum að bæla niður eðlilegar tilfinningar og bara vera “hamingjusöm / hamingjusamur”. Eða í raun að þykjast vera það. Það sem getur gerst innra með manneskjunni sem er að upplifa þessar tilfinningar er skömm, kvíði eða jafnvel samviskubit. Hugsanir eins og mér á nú ekki að líða svona illa, margir hafa það nú mun verr eða ég er svo vanþakklát / vanþakklátur geta komið upp og gera ekkert nema láta aðilanum líða enn verr. Upplifunin hjá manneskjunni sem er að tjá sig gæti verið að ekki sé hlustað á hana og að hún ætti ekki að vera að tala um sín mál eða sínar tilfinningar.
Manneskja sem áttar sig á gagnsemi tilfinninga getur mun frekar verið stuðningur fyrir aðra þegar á reynir.
Þá eru erfiðar tilfinningar samþykktar sem partur af tilfinninga rófinu. Sú manneskja myndi passa upp á að aðilinn sem væri að upplifa erfiðleika geti tjáð sig í öruggu umhverfi. Hún myndi vera með virka hlustun og segja setningar eins og:
- Ég er hér fyrir þig.
- Það er allt í lagi að vera sorgmædd / sorgmæddur.
- Ég get skilið að það sé erfitt.
- Ég skil að þetta erfitt, viltu tala um það?
- Ég veit þetta er erfitt en ég hef trú á þér.
- Ég hef ekki sjálf /sjálfur verið í þeim sporum en ég get ímyndað mér að það sé erfitt / erfið staða.
- Það er mjög eðlilegt að upplifa vonleysi í þessum aðstæðum.
- Það getur verið erfitt að sjá það jákvæða í þessum aðstæðum við munum átta okkur á því seinna.
- Hvernig get ég hjálpað þér?
- Það er allt í lagi að gera mistök.
Það er munur á eitraðri eða falskri jákvæðni og svo að hafa von og bjartsýni.
Það er hægt að viðurkenna allar tilfinningar en á sama tíma halda í vonina og vera bjartsýn/n. Manneskja sem er með viðhorfið að hún eigi öllum stundum að vera jákvæð upplifir skömm þegar hún upplifir erfiðar tilfinningar. Hún dregur sig gjarnan í hlé ef hún upplifir sig ekki vera glaða, hún felur hvernig henni raunverulega líður. Hún talar ekki við aðra um sína vanlíðan og leitar þá ekki aðstoðar þegar þörf er á. Þá fer manneskjan jafnvel sjálf að bera sig við aðra sem að hennar mati hafa það verr en hún.
Lærum að samþykkja allar mannlegar tilfinningar.
Bæði hjá okkur og fólkinu í kringum okkur. Veljum það viðhorf til tilfinninga okkar að þær séu allar gagnlegar. Verum meðvituð um eigin tilfinningar og lærum að þekkja þær. Vinnum í að ná stjórn á tilfinningum okkar svo þær stjórni okkur ekki. Þannig náum við betra jafnvægi og náum að vinna úr óþæginlegum tilfinningum á heilbrigðan hátt. Annars fara þær að geta valdið okkur andlegum skaða. Við höfum tilfinningar af ástæðu, svo þú ættir ekki að vilja losna við þær.
Prófaðu næst þegar þú færð erfiða tilfinningu að setjast eða leggjast niður og loka augunum. Dragðu djúpt andann 5 sinnum inn um nefið og út um munninn.
Svo reynir þú að þekkja tilfinninguna, gefa þér smá tíma og setja nafn á hana. Því næst þá staðsetur þú hvar hún er í líkamanum. Þegar þú hefur fundið hvar hún er setur þú lit og form á hana. Leyfðu þér að finna tilfinninguna eins lengi og þú hefur þörf á. Þegar þú finnur að þú ert tilbúin þá skaltu ímynda þér að þú sleppir henni og geymir hana á stað sem þú vilt eða þá að þú leyfir henni að fara alveg í burtu. Getur ímyndað þér hana svífa í burtu.
Mundu að sýna þér sjálfsmildi það er eðlilegt að eiga erfitt með vissar tilfinningar.
Ef þú átt erfitt með þínar tilfinningar og finnst sem þær stjórna þér eða sem þú bælir þær niðri þá skaltu leita þér aðstoðar við að læra að stjórna tilfinningum þínum á heilbrigðan hátt.
Að upplifa tilfinningar er ekkert öðruvísi en að upplifa það að okkur sé stundum of heitt eða stundum of kalt.
“Tilfinningar eru tungumál sálarinnar”