Þú hefur sennilega oft heyrt eða lesið að lykilinn af hamingjusömu lífi sé fyrst og fremst að elska sjálfan sig. Þá hefur þú jafnvel spurt þig hvernig þú getur unnið að því að elska sjálfa/n þig meira.
Hvað hugsar þú þegar þú heyrir orðið sjálfsást?
Sjálfsást er ástand innra með okkur, það er hvernig okkur líður. Það eru hugsanir og hugmyndir sem við höfum um okkur sjálf. Það að elska sig er margþætt og krefst þess oft að við vinnum í okkur sjálfum. Aðalatriðið er að taka sjálfan sig í sátt en það þýðir bæði með sínum kostum og brestum. En þýðir það að við getum ekki unnið í okkar brestum og betrumbætt okkur? Svarið er einfaldlega nei, partur af því að elska sig er nefnilega líka að vinna í sér. Að finnast maður þess verðugur að vinna í sér hvort sem það sé gert með fagaðila eða á annan hátt. Það að betrumbæta sig leiðir mann inn á veg hamingjunnar. Eitt stærsta atriðið er að sýna sér sjálfsmildi, sýna sér mildi þrátt fyrir eigin mannlegu bresti.
Þá getum við velt þeirri spurningu fram hvort það að líta stöðugt í baksýnis spegilinn sé að sýna sér sjálfsmildi?
Það gerir engum gott að horfa stöðugt til baka nema það sé í þeim eina tilgangi að læra af fortíðinni. Ef mistök hafa verið gerð þá er gríðarlega mikilvægt að geta fyrirgefið sér sjálfum og haldið áfram veginn. Kannski er það ekki alltaf auðvelt verkefni en það er engu að síður mikilvæg vinna sem þarf að gera til þess að taka sig sjálfa/n í sátt og elska sig.
Ef við hugsum um mistök sem við höfum gert, hvað kemur þá í hugann, er það eitthvað sem skilgreinir okkur?
Á hvað hengjum við sjálfsvirði okkar eru það mistökin okkar og út af mistökunum þá erum við ómöguleg. Eða hengjum við sjálfsvirði okkar á afrek okkar og hversu “dugleg” við erum eða hvaða álit annað fólk hefur á okkur, á hvað hengir þú þitt sjálfsvirði? Hvað ef að sjálfsvirði okkar þyrfti ekki að vera hengt á neitt, hvernig myndi það líta út? Ef að sjálfsvirði okkar væri byggt á okkar innri manneskju en ekki ytri aðstæðum, væri það ekki mikill léttir? Þetta eru kannski margar spurningar en það á hvað við hengjum sjálfsvirði okkar hefur mikil áhrif á það hversu mikið sjálfsmildi og sjálfsást við getum sýnt okkur. Við erum verðug vegna þess hver við erum en ekki vegna þess hversu vel fólk kann við okkur, eða vegna alls sem við höfum afrekað.
Hefur þú trú á þér?
Er ekki gott sjálfstraust að treysta sér sjálfum til að taka ákvarðanir eða til að hlusta á eigið innsæi. Myndi þá ekki gott sjálfstraust ýta undir þá hugmynd hjá okkur sjálfum að við getum látið drauma okkar og markmið rætast og þora að vera við sjálf. Gott sjálfstraust færir okkur mun nær því lífi sem okkur dreymir um að lifa og gerir lífið því innihaldsríkara. Við þurfum oft hjálp til að byggja upp sjálfstraustið okkar, það getur líka tekið tíma að byggja það upp. Þetta er ekki bara beinn vegur heldur er hann hlykkjóttur og stundum förum við skref aftur á bak. En það er líka allt í lagi, þarna þurfum við að sýna okkur sjálfsmildi. Að vinna að því að hafa gott sjálfstraust er stór partur af því að elska sig.
Ef við elskum okkur þá erum við líklegri til að velja það sem er best fyrir okkur.
Við erum líklegri til að hlúa að okkur eins og við þurfum, við erum líklegri til að hlusta betur á eigin líkama. Þegar við elskum okkur þá erum við líklegri til að vinna úr erfiðum lífsreynslum vegna þess að við berum virðingu fyrir okkur og finnst við eiga hamingjuna skilið. Við veljum frekar það fólk í kringum okkur sem hvetur okkur áfram og hlustar á okkur af einlægni. Þegar við metum sjálf okkur mikils virði þá gerum við okkur grein fyrir að tími okkar er gull, þá íhugum við vandlega með hverjum við eyðum tíma okkar og hvernig við eyðum honum.
Spurðu þig þessara spurninga:
- Hvað er það fallegasta sem þú getur sagt um sjálfa/n þig?
- Hvernig bregst þú við þegar þú gerir mistök?
- Hafa mistök áhrif á sjálfstraustið þitt?
- Hvernig líður þér ef að þú heldur að einhverjum líki ekki við þig?
- Hvernig líður þér ef einhver gagnrýnir þig?
- Hverjir eru þínir styrkleikar?
- Hvað hugsar þú þegar þú lítur í spegil?
Það er aldrei of seint að hefja vegferðina að elska sig eða að forgangsraða þannig í lífinu að þú setur þig í fyrsta sæti.
Þú átt skilið að að elska þig og samþykkja eins og þú ert og fá þannig sem mest út úr lífinu. Að elska sjálfan sig þýðir ekki að þú hafir aldrei áhyggjur, efasemdir eða ótta, það þýðir að þú haldir áfram þrátt fyrir að upplifa þessar tilfinningar. Ef þú elskar þig þá veitir það þér öryggi, styrk og hvatann til að berjast fyrir því sem þú vilt þrátt fyrir þær hindranir sem kunna að verða á vegi þínum.
Ein mesta eftirsjá sem þú getur haft í lífinu er að vera það sem aðrir myndu vilja að þú værir, frekar en að vera þú sjálfur.
–Shannon L. Alder