Ég skrifaði pistill í Morgunblaðinu um skólaforðun og þar sem hann er læstur og nokkrir búnir að senda á mig sem vildu fá að lesa til enda, þá langaði mig að setja færsluna hér í heild sinni.
Þessi málefni eru mér afar kær ❤
Þegar börn eða ungmenni eru hætt að vilja mæta í skólann þá er vandinn oft orðinn mikill og margir hafa komið að málinu til að reyna að hjálpa.
Vandinn getur verið af ýmsum toga, félagslegir örðugleikar, námsvandi, lágt sjálfsmat, þunglyndi, hamlandi kvíði, skynjunarúrvinnsluvandi, einelti o.fl. Þegar vandinn er orðinn svona mikill er oft erfitt fyrir kennara að hjálpa, einfaldlega vegna þess að kennari sem er með heilan bekk til að huga að getur ekki líka tekið að sér sérkennslu og ætti ekki að þurfa þess, það eru ekki raunhæfar kröfur til kennara. Þessi börn þurfa oft líka aðstoð frá öðrum fagaðilum sem stendur ekki alltaf til boða í almennu skólakerfi. Flestir kennarar eru allir af vilja gerðir að gera allt sem þeir geta fyrir börnin í sínum bekk, vandamálið liggur hreinlega ekki hjá kennaranum. Hvað er þá hægt að gera til að koma til móts við þennan hóp barna og ungmenna?
Skoðum þá staðreynd að stór hluti barna og ungmenna sem eru með hamlandi kvíða gagnvart því að mæta í skólann er einhverfur. Greiningarstöðin talar um að skólaforðun sé sex sinnum algengari hjá einhverfum börnum en öðrum. Það má líka skoða það hvort annar hópur með skólaforðun sé með ógreinda einhverfu en það getum við ekki vitað fyrir víst. Það er einnig staðreynd að á Íslandi kemst aðeins hluti einhverfra barna í einhverfudeild.
Menntun á að fara fram á forsendum hvers og eins, en hvernig þá og eftir hvaða aðgerðum skuldbinda ríkin sig til að fara? Aðildarríki eiga að sjá til þess að fatlaðir einstaklingar eigi greiðan aðgang að almennu skólakerfi og þannig séu skólar án aðgreiningar.
Skóli án aðgreiningar er lögfest meginstefna skólastarfs á Íslandi. Hún á rætur að rekja til Salamanca-yfirlýsingarinnar en hún gerir ráð fyrir að skólar séu mikilvægasta tækið til að vinna á samfélagslegri mismunun.
Hvernig er aðgengi fyrir einhverfa í skólabyggingum og á skólalóð? Þá vil ég benda á hljóðvist, birtustig ljósa, stærð bekkja, námsefni, húsgögn, leiksvæði o.fl.
Ég ætla að biðja ykkur að ímynda ykkur ef:
- Þið hefðuð ekki val um hvort þið yrðuð að mæta á einhvern stað fimm daga vikunnar, nokkra klukkutíma í senn, þrátt fyrir að vera komin með líkamleg kvíðaeinkenni.
- Þið væruð sett í umhverfi alla daga þar sem hávaðinn væri yfirþyrmandi og ljósin svo björt að þið ættuð jafnvel erfitt með að vera með opin augun.
- Það væru svo líka settar kröfur á ykkur að vinna verkefni sem þið ættuð erfitt með að skilja og leiðbeiningarnar væru svo flóknar að þið gætuð ekki skilið þær en samt væri verið að pressa á ykkur að klára það sem fyrst.
- Þið væruð jafnvel með fólki sem þið upplifðuð að talaði annað tungumál, þið skiljið einfaldlega ekki hvaða reglur gilda í samskiptunum en samt væri ykkur sagt að líkjast þeim meira og blanda geði.
Þá spyr ég aftur: er „skólaforðun“ hegðunarvandi eða þarf að finna leiðir til að hlúa betur að þessum hópi og búa honum viðeigandi umhverfi, viðráðanleg verkefni og að kröfur séu við hæfi? Ég leyfi mér að fullyrða að það sé einlægur vilji allra þeirra sem vinna með þessum hópi að þörfum hans sé mætt. Auðvitað er þetta mismunandi á milli skóla, þ.e.a.s. hvernig þessum hópi er mætt og hvaða úrræði kennarar og starfsfólk hafa til að grípa í. En ég veit því miður of mörg dæmi þess að foreldrar þurfi virkilega að berjast fyrir því að fá viðeigandi stuðning fyrir börn sín.
Sumir foreldrar, sem eru að gera sitt allra besta til að reyna að aðstoða sín börn og ungmenni, hafa lýst því að þeir mæti fordómum og þetta sé strax stimplað sem foreldravandamál, sem í fæstum tilfellum er raunin. Í langflestum tilfellum er þörf á að breyta aðstæðunum og taka meira mið af einstaklingnum. Það geta verið hlutir eins og að stytta skóladaginn, breyta um umhverfi, sem er þá með minna áreiti, einstaklingsmiðað nám, taka tillit til þarfa einstaklingsins eins og t.d. hreyfiþarfar og eða „stimmþarfar“, bjóða einstaklingsstuðning, prófa nýjar nálganir á námsefni o.fl. Öll börn og ungmenni eiga fullan rétt á því að líða vel í sínu skólaumhverfi og frístund, við þurfum að sjá það sem staðreynd að það sé gerlegt.
Það mætti þá líka skoða hvort þetta orð, „skólaforðun“, sé í raun úrelt þar sem það vitnar í að vandinn liggi hjá barninu/ungmenninu en mögulega ekki raunverulega vandann, sem er þá úrræðaleysi.
Hvaða orð myndi þá lýsa vandanum betur?
Þetta er ekki ádeila á kennara, ég veit það af eigin reynslu að meginþorri kennara vill og reynir eftir fremsta megni að koma til móts við þau börn sem eru „flokkuð“ með skólaforðun, en þeir hafa því miður ekki tök á að gera það sem þarf. Það er ekki í verkahring kennara að aðlaga skólann þörfum þessara barna og ungmenna, það þarf að breyta og bæta sjálft skólakerfið í heild og bæta stuðning við þennan hóp til muna, það er þeirra réttur. Lausnina þarf að finna í skólakerfinu sjálfu, ekki hjá börnunum, foreldrunum eða kennurum. Ég skora á stjórnendur menntamála að finna leiðir til þess að koma betur til móts við þennan hóp barna og ungmenna og vinna þannig gegn skólaforðun og kvíða.
Höfundur er félagsliði, NLP-markþjálfi, krakkajógakennari og ráðgjafi og heldur úti síðunni Lífsstefna á samfélagsmiðlum.