Ég skrifaði pistill í Morgunblaðinu um skólaforðun og þar sem hann er læstur og nokkrir búnir að senda á mig sem vildu fá að lesa til enda, þá langaði mig að setja færsluna hér í heild sinni.

Þessi málefni eru mér afar kær ❤

Þegar börn eða ung­menni eru hætt að vilja mæta í skól­ann þá er vand­inn oft orðinn mik­ill og marg­ir hafa komið að mál­inu til að reyna að hjálpa.

Vand­inn get­ur verið af ýms­um toga, fé­lags­leg­ir örðug­leik­ar, nám­svandi, lágt sjálfs­mat, þung­lyndi, hamlandi kvíði, skynj­unar­úr­vinnslu­vandi, einelti o.fl. Þegar vand­inn er orðinn svona mik­ill er oft erfitt fyr­ir kenn­ara að hjálpa, ein­fald­lega vegna þess að kenn­ari sem er með heil­an bekk til að huga að get­ur ekki líka tekið að sér sér­kennslu og ætti ekki að þurfa þess, það eru ekki raun­hæf­ar kröf­ur til kenn­ara. Þessi börn þurfa oft líka aðstoð frá öðrum fagaðilum sem stend­ur ekki alltaf til boða í al­mennu skóla­kerfi. Flest­ir kenn­ar­ar eru all­ir af vilja gerðir að gera allt sem þeir geta fyr­ir börn­in í sín­um bekk, vanda­málið ligg­ur hrein­lega ekki hjá kenn­ar­an­um. Hvað er þá hægt að gera til að koma til móts við þenn­an hóp barna og ung­menna?

Skoðum þá staðreynd að stór hluti barna og ung­menna sem eru með hamlandi kvíða gagn­vart því að mæta í skól­ann er ein­hverf­ur. Grein­ing­ar­stöðin tal­ar um að skóla­forðun sé sex sinn­um al­geng­ari hjá ein­hverf­um börn­um en öðrum. Það má líka skoða það hvort ann­ar hóp­ur með skóla­forðun sé með ógreinda ein­hverfu en það get­um við ekki vitað fyr­ir víst. Það er einnig staðreynd að á Íslandi kemst aðeins hluti ein­hverfra barna í ein­hverfu­deild.

Mennt­un á að fara fram á for­send­um hvers og eins, en hvernig þá og eft­ir hvaða aðgerðum skuld­binda rík­in sig til að fara? Aðild­ar­ríki eiga að sjá til þess að fatlaðir ein­stak­ling­ar eigi greiðan aðgang að al­mennu skóla­kerfi og þannig séu skól­ar án aðgrein­ing­ar.

Skóli án aðgrein­ing­ar er lög­fest meg­in­stefna skóla­starfs á Íslandi. Hún á ræt­ur að rekja til Salamanca-yf­ir­lýs­ing­ar­inn­ar en hún ger­ir ráð fyr­ir að skól­ar séu mik­il­væg­asta tækið til að vinna á sam­fé­lags­legri mis­mun­un.

Hvernig er aðgengi fyr­ir ein­hverfa í skóla­bygg­ing­um og á skóla­lóð? Þá vil ég benda á hljóðvist, birtu­stig ljósa, stærð bekkja, náms­efni, hús­gögn, leik­svæði o.fl.

Ég ætla að biðja ykk­ur að ímynda ykk­ur ef:

  • Þið hefðuð ekki val um hvort þið yrðuð að mæta á ein­hvern stað fimm daga vik­unn­ar, nokkra klukku­tíma í senn, þrátt fyr­ir að vera kom­in með lík­am­leg kvíðaein­kenni.
  • Þið væruð sett í um­hverfi alla daga þar sem hávaðinn væri yfirþyrm­andi og ljós­in svo björt að þið ættuð jafn­vel erfitt með að vera með opin aug­un.
  • Það væru svo líka sett­ar kröf­ur á ykk­ur að vinna verk­efni sem þið ættuð erfitt með að skilja og leiðbein­ing­arn­ar væru svo flókn­ar að þið gætuð ekki skilið þær en samt væri verið að pressa á ykk­ur að klára það sem fyrst.
  • Þið væruð jafn­vel með fólki sem þið upp­lifðuð að talaði annað tungu­mál, þið skiljið ein­fald­lega ekki hvaða regl­ur gilda í sam­skipt­un­um en samt væri ykk­ur sagt að líkj­ast þeim meira og blanda geði.

Þá spyr ég aft­ur: er „skóla­forðun“ hegðun­ar­vandi eða þarf að finna leiðir til að hlúa bet­ur að þess­um hópi og búa hon­um viðeig­andi um­hverfi, viðráðan­leg verk­efni og að kröf­ur séu við hæfi? Ég leyfi mér að full­yrða að það sé ein­læg­ur vilji allra þeirra sem vinna með þess­um hópi að þörf­um hans sé mætt. Auðvitað er þetta mis­mun­andi á milli skóla, þ.e.a.s. hvernig þess­um hópi er mætt og hvaða úrræði kenn­ar­ar og starfs­fólk hafa til að grípa í. En ég veit því miður of mörg dæmi þess að for­eldr­ar þurfi virki­lega að berj­ast fyr­ir því að fá viðeig­andi stuðning fyr­ir börn sín.

Sum­ir for­eldr­ar, sem eru að gera sitt allra besta til að reyna að aðstoða sín börn og ung­menni, hafa lýst því að þeir mæti for­dóm­um og þetta sé strax stimplað sem for­eldra­vanda­mál, sem í fæst­um til­fell­um er raun­in. Í lang­flest­um til­fell­um er þörf á að breyta aðstæðunum og taka meira mið af ein­stak­lingn­um. Það geta verið hlut­ir eins og að stytta skóla­dag­inn, breyta um um­hverfi, sem er þá með minna áreiti, ein­stak­lings­miðað nám, taka til­lit til þarfa ein­stak­lings­ins eins og t.d. hreyfiþarfar og eða „stimmþarfar“, bjóða ein­stak­lings­stuðning, prófa nýj­ar nálgan­ir á náms­efni o.fl. Öll börn og ung­menni eiga full­an rétt á því að líða vel í sínu skólaum­hverfi og frí­stund, við þurf­um að sjá það sem staðreynd að það sé ger­legt.

Það mætti þá líka skoða hvort þetta orð, „skóla­forðun“, sé í raun úr­elt þar sem það vitn­ar í að vand­inn liggi hjá barn­inu/​ung­menn­inu en mögu­lega ekki raun­veru­lega vand­ann, sem er þá úrræðal­eysi.

Hvaða orð myndi þá lýsa vand­an­um bet­ur?

Þetta er ekki ádeila á kenn­ara, ég veit það af eig­in reynslu að meg­inþorri kenn­ara vill og reyn­ir eft­ir fremsta megni að koma til móts við þau börn sem eru „flokkuð“ með skóla­forðun, en þeir hafa því miður ekki tök á að gera það sem þarf. Það er ekki í verka­hring kenn­ara að aðlaga skól­ann þörf­um þess­ara barna og ung­menna, það þarf að breyta og bæta sjálft skóla­kerfið í heild og bæta stuðning við þenn­an hóp til muna, það er þeirra rétt­ur. Lausn­ina þarf að finna í skóla­kerf­inu sjálfu, ekki hjá börn­un­um, for­eldr­un­um eða kenn­ur­um. Ég skora á stjórn­end­ur mennta­mála að finna leiðir til þess að koma bet­ur til móts við þenn­an hóp barna og ung­menna og vinna þannig gegn skóla­forðun og kvíða.
Höf­und­ur er fé­lagsliði, NLP-markþjálfi, krakkajóga­kenn­ari og ráðgjafi og held­ur úti síðunni Lífs­stefna á sam­fé­lags­miðlum.